Jóhanna Margrét í stjórn Heimdallar

Tvær glæsilegar ungar konur tókust á í kosningum til formanns og stjórnar Heimdallar. Jóhanna var í liði með Erlu Ósk og er búin að láta hendur standa fram úr ermum að undanförnu. "Ég hefði ekki gefið kost á mér, nema af því þú hvattir mig",sagði Jóhanna við mig í gærkvöldi þegar hún kom heim. Ég spurði hana hvernig staðan væri að hennar mati. "Þetta stendur tæpt". Sigurinn er alltaf sætur og það var hress Jóhanna sem hringdi í mig í kvöld til að segja mér úrslitin. Til hamingju Erla Ósk og félagar. Kosningin í Heimdalli sýnir að það er kraftur í unga fólkinu. Ungar konur eru í sókn og eiga eftir að láta meira að sér kveða.

Einar Örn á spítala

Á Barnaspítala Hringsins er jákvætt og einstaklega fært starfsfólk. Einar Örn veiktist í skólanum á fimmtudagsmorgun. Uppköst  og slæmur magaverkur sem ágerðist og færðist neðar í kviðinn þegar leið á daginn. Hann og Bessí Þóra voru í minni umsjá þar sem foreldrarnir voru erlendis. Ég ákvað að fara með hann út á heilsugæslu og hitti þar ungan lækni Kristján sem skoðaði hann vel og leitaði upp skýrslu frá Barnaspítala Hringsins frá því í júlí í ár en þá höfðu Erna og Jón farið með hann þangað eftir að hann fékk svipaða verki neðst í kviðinn. Kristján sagði mér að fara með hann á spítalann ef honum versnaði. Eftir að við komum heim sofnaði hann og þegar hann vaknaði kvartaði hann undan sárari verkjum. Ég ákvað því að ekki væri eftir neinu að bíða og hafði samband við Ernu og gaf hún grænt ljós á að fara með hann. Á Barnaspítalanum var vel tekið á móti okkur Sólborg hjúkrunarfræðingur skoðaði hann og síðan Tryggvi læknir. Ákveðið var að taka þvag- og blóðprufu. Þegar það kom í ljós að þær voru ekki í lagi var okkur sagt að best væri að við dveldum á spítalanum yfir nóttina til eftirlits. Einari leist ekkert á það í fyrstu og gerði lítið úr verkjunum. Ekki gat hann þó leynt sársaukanum og gengum við til rekkju. Ég svaf við hlið hans í ágætu ferðarúmi. Við sváfum frekar lítið enda sífellt verið að sinna Einari eða ungum dreng sem lá í hinu rúminu. Á föstudagsmorgun var á ný tekin blóðprufa og sýndi hún að ekki væri allt með felldu. Okkur var tilkynnt að best væri að taka botnlangann sem fyrst. Undirbúningur hófst strax og fjöldi læknanema kom og fékk að skoða Einar sem tók því af stóískri ró. Þegar Erna og Jón fréttu af gangi mála ákváðu þau að koma strax heim frá Mílanó en Erna hafði verið þar á BMW fundum. Kristján skurðlæknir gerði okkur grein fyrir því sem var framundan og hjúkrunarfræðingur sýndi Einari myndir af skurðdeildinni sem við vorum á leið á. Allt var þetta gert á jákvæðan og uppörvandi hátt.

Á skurðdeildina er drjúgur spölur og þótti Einari ferðin þangað spennandi. "Hér eru allir í grænu", sagði Einar við Sólborgu eldri sem tók á móti okkur. Gísli svæfingalæknir kom og skoðaði Einar og spurði nokkurra spurninga og gerði okkur grein fyrir svæfingunni og áhrifum hennar. Eftir þetta fékk Einar sprautu og kvaddi ömmu sína og var nú fluttur inn á skurðstofu.

Aðgerðin gekk vel. Botnlaginn var bólginn og Kristján læknir sagði gott fyrir Einar að losna við hann. Einar var talsvert þrekaður eftir aðgerðina og fékk verkjalyf. Eftir að hann sofnaði í tvær stundir vaknaði hann hinn hressasti og var því ekki eftir neinu að bíða og við vorum flutt á barnadeildina á stofu 33. Aðstaðan fyrir sjúklinga og aðstandendur er einstaklega góð og allur aðbúnaður hinn besti. Gummi kom að leysa mig af og fór ég heim og sofnaði um stud enda orðin dauðþreytt. Einar Örn er einstaklega ljúfur og góður drengur. Hann hefur húmorinn í góðu lagi og var til í að segja þeim sem vildu á hlíða brandara.Verst að ég man ekkert af þeim. Hugurinn var við annað. Þegar leið á nóttina kom foreldrarnir og ég var send heim. Mínu hlutverki var lokið um sinn. Ég átti erfitt með að sofna þegar heim var komið. Oddný vinkona var að passa Bessí Þóru en þær voru báðar sofnaðar. Allt hafði gengið að óskum með guðs hjálp. Kærar þakkir ágæta starfsfólk Barnaspítala Hringsins. 


Verður Framsókn með konur í forustu?

Siv Friðleifsdóttir hefur tilkynnt framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Getur það gerst að Framsóknarflokkurinn verði fyrsti blandaði stjórnmálaflokkurinn (ekki kvennalisti) til að fá konu í formanns- og varaformannssæti? Varla, og þó, framsóknarmenn hafa verið merkilega duglegir við að koma konum í leiðtogasæti. Það gæti lengt lífið í Framsóknarflokknum a.m.k. hefur flokkurinn engu að tapa. Jón Sigurðsson er er ágætlega hæfur en hefur hann þá persónutöfra sem þarf til að ná til ungra kjósenda? Hann kemur fyrir sem traustur en dálítið þurr og ekki laus við hroka. Veit um hvað hann talar og lætur vita af því. Ég þekki Jón frá gamalli tíð og veit að hann er drengur góður og mikill húmoristi. Hann þarf að mýkja sinn stíl. Einhver orðaði það að hann væri of líkur skólastjóra eða mjög ströngum kennara. Hann er ekki með mikla reynslu af framkomu í fjölmiðlun og þyrfti að fara á gott námskeið hjá Þorsteini J.og Maríu Ellingsen. Siv er glæsileg, jákvæð og hefur sýnt að hún getur verið leiðtogi. Sjálfsagt hafa strax komið fram fordómar gegn henni en þær Jónína Bjartmars og hún gætu orðið góðar saman. Hörku konur með nýja ímynd sem fallið gæti ýmsum kjósendum vel. Kannski er enn lífsmark með Framsóknarflokknum?

Umræðan um átökin í Líbanon eru átök sjálfstæðs, fullvalda ríkis gegn hryðjuverkamönnum Hizbollah sem fela sig í skjóli almennings. Þetta virðist gleymast í umræðunni í íslenskum fjölmiðlum að verulegu leyti. Íranir og Sýrlendingar hafa dælt vopnum til Hizbollah og í krafti þess skjóta þeir á saklausa borgara í Ísrael. Vopnaður friður er að komast á en hann verður varla varanlegur ef Palestínumenn fá ekki sitt fullvalda ríki og þeir viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis.

Frábært hjá bresku, pakinstönsku og bandarísku lögregunni að koma í veg fyrir skelfileg hryðjuverk sem áformuð voru. Það verður að ná tökum á hryðjuverkasamtökum og koma á þann hátt í veg fyrir árásir. Til hamingju, sérstaklega breska lögreglan 

Hef fengið skammir fyrir að blogga ekkert undanfarið. Það stendur til bóta.


"Hvað var sagt?"

Zidane var rekinn af leikvellinum í HM í gær. Dapurlegt að ljúka þannig ferli sínum. Eftir stendur að hann beitti ofbeldi og það hefði verið ótækt að hann slyppi við refsingu. Ég horfði á leikinn heima hjá Oddnýju vinkonu og eina stöðin sem ég komst inn á var DR. Fyrst skyldi ég varla orð af því sem þulurinn sagði en það lagaðist fljótt. Skelfing var hann leiðinlegur. En hvað á að gera þegar ekki næst í Sýn. Auðvitað var þetta klaufaskapur eins og að missa út íslensku stafina á tölvunni og finna þá ekki aftur. Jóhanna Margrét bjargaði því í samráði við Einar, sem hafði lent í því sama, á einni mínútu eða svo.

Myndin mín er af mér að hoppa á trampólíni í fyrrradag. Einar Örn sagði að ég gæti það alveg. Mamma hans var búin að hoppa 200 hopp. Ég varð við áskorunni enda stolt af trausti barnsins á ömmu sinni. Ég var heldur óörugg í byrjun og þorði ekki að lyfta fótunum en viti menn sjálfstraustið jókst og fæturnir fóru hærra og hærra.Einar taldi og eftir 100 og góða hvíld komu 110 í viðbót. Mikill sigur fyrir mig að gera eitthvað sem ég hef ekki þorað áður. Ég þakkaði Einari fyrir að hafa trúað að ég gæti þetta. Hann brosti til mín með  stríðnisglampa í augum.

Það er gott að koma í Laugar, World class, og taka hraustlega á  undir öruggri stjórn Einars Óla. Ef ég kvarta um sársauka segir hann mér að ég þurfi aðeins að komast lengra. Ég veit að ég hefði ekki getað hoppað svona mikið ef ég hefði ekki æft nokkuð reglulega. Mér líður alltaf vel að æfingum loknum en er stundum löt að koma mér af stað. Vinstri öxlin er ekki komin í lag eftir að ég meiddi mig á sal í skólanum fyrir einu og hálfu ári þegar  nemandi rak sig óvart í kollinn sem ég ætlaði að setjast á.

 


Magni stóð sig vel

Tilviljanir eru oft skemmtilegar. Ég var andvaka í gærkvöldi og kveikti á sjónvarpinu og viti menn hafin var mikil keppni á Skjá1. Magni söng fimmti í röðinni og stóð sig vel. Hann virkaði dálítið taugastrekktur enda engin furða. Röddin er virkilega falleg en sviðsframkoman frekar ´"óprofessional" miðað við þau sem sungu á undan honum. Mér þóttu rokkararnir sem dæmdu dálítið skrautlegir en þeir vissu greinilega um hvað þeir voru að tala. Keppnin verður hörð og ef Magni kemst áfram þá verður það dýrmætur skóli fyrir hann. Við megum vera hreykinn af þessu ágæta listamanni.

Leikurinn í gær var ekki eins skemmtilegur og leikur Þjóðverja og Ítala. Ég ætla ekkert að minnast á leiktaktik enda hef ég ekki vit á henni.

Sólin skín við Skerjafjörð og ætla ég að fá mér göngutúr og fara á fund í hádeginu.


"Þvílík snilld"

Ítalir unnu Þjóðverja í frábærum leik. Arnar Björnsson lýsti leiknum skemmtilega á Sýn. Við Jóhanna Margrét vorum límdar við sjónvarpið og þó við héldum báðar með Þjóðverjum getum við ekki annað en glaðst með Ítölum. Þorsteinn J. og Heimir Karlsson hitta vel í mark enda frábærir sjónvarpsmenn. Ég fékk fyrst áhuga á fótbolta þegar ég fékk tækifæri til að vera á upphafsleik heimsmeistarakeppninnar í Kóreu. Það var einstök upplifun. Hér á heimilinu er mikill fótboltaáhugi og alltaf stillt á Sýn þegar leikir eru á HM. Ég er að vísu afar fáfróð hvað varðar leikreglur en mér er sýnd þolimæði þegar ég spyr sjálfsagt einfaldra spurninga. Haft er orð á því hve vel Þjóðverjar hafa staðið að keppninni og að hún hafi skapað einingu í annars sundruðu ríki. Það er gott að Þjóðverjar finni til samkenndar og að önnur ríki geti horft jákvætt til þeirra. Íþróttir eru vel til þess fallnar að tengja menn þannig að þeir upplifi sig sem samherja þó í leik sé. Það er mikilvægt að efla liðsheildina og skapa bjartsýni. Á morgun keppa Portúgal og Frakkland og held ég með Portúgal. Hvað með 2-1 fyrir Portúgal?

Til hamingju Einar Óli með árangurinn á inntökuprófinu í sjúkraþjálfun í HÍ og með nýju íbúðina.


Viðhorfið skiptir máli

Er ekki dæmigert að finna forsjárhyggju í viðbrögðum margra við slysaöldunni sem reið yfir umliðna helgi. Banna hraðskreiða bíla, koma fyrir tæki sem takmarkar hámarkshraða, hækka innflutingsgjöld o.s.frv. Þó allt þetta væri gert þá dugar það ekki til því að það er fyrst og fremst viðhorf ökumannsins og farþeganna sem ræður úrslitum. Spurningin er hvernig getum við haft áhrif á það. Ég er hrifin af kraftmiklum bílum og kemst bílinn minn í 260 km. samkvæmt tölunum á hraðamælinum. Staðreyndin er sú að kraftmiklir bílar eru oft sterkbyggðari og með betri öryggistæki en litilir og kraftlausir bílar. Mitt viðhorf til aksturs er að aka eftir aðstæðum, nota öryggisbelti sem ökumaður og ekki síður að farþegarnir geri það líka. Ekki að tala í síma (kemur þó fyrir)við akstur og láta sem minnst trufla mig. Bílar hafa alltaf verið stór þáttur í mínu lífi. Pabbi gerði upp bíla sem hann keypti hjá Sölunefnd varnarlisðseigna og seldi síðan. Hann var mikill bílamaður og kunni að meta "alvörubíla" eins og hann kallaði þá. Síðan giftist ég inn í mikla bílafjölskyldu og hef eignast marga frábæra bíla. Bílar eru í sífelldri þróun og mikið lagt í að gera þá sem öruggasta fyrir ökumann og farþega. Sé  viðhorf ökumannsins að virða ekki lög og reglur þá er það ekki bílnum um að kenna ef illa fer. "Árinni kennir illur ræðari" eins og segir í fornum málshætti. Hörmuleg umferðarslys vekja okkur til umhugsunar um það hvort viðhorf ungra ökumanna til aksturs þurfi ekki að breytast. Þar verðum við að skoða hvernig efla megi ábyrgðartilfinningu hvers og eins þannig að þeir sem setjast undir stýri og þeir sem eru farþegar fylgi settum reglum. Með því móti verður til hugarfarsbreyting. Enginn heilbrigður ökumaður ætlar að valda slysi en er það nóg?

Ágætur pistill hjá Vali Óskarssyni um ábygðarleysi margra foreldra á uppeldi barna sinna. Ég veit að ýmsum þykir ótrúlegt að foreldrar skuli æsa sig yfir því að áfengi sé tekið af unglingunum þeirra. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þegar talað er um útihátíðir og áfengisneyslu segja sumir."Þetta var ekkert betra þegar ég var ung". Það má rétt vera en í dag vitum við mun meira um skaðsemi áfengis og fíkniefna en áður. Börnin eru dýrmætasta eign okkar og þess vegna viljum við að þau fái alla þá umhyggju og aga sem þarf til að gera þau að mönnum.


Unglingar og útihátíðir

Jóhanna Margrét er komin heim af útihátíð í Ólafsvík. Fegin að allt gekk vel. Hún sagði mér að mikið hafi verið um unglinga 13-14 ára dauðadrukkin og eftirlitslaus. Nú er það svo að mikill áróður er rekinn fyrir því að foreldrar láti ekki unglingana sína fara á slíkar samkomur á eftirlits. Ég hef haft það fyrir sið með börnin mín að þau séu helst í útlöndum í skóla á þessum tíma árs þegar útihátíðir eru haldnar. Jóhanna sem verður 18. ára í næsta mánuði er reglusöm og er í góðum hópi sem stendur saman. Umferðarslys helgarinnar voru hörmuleg og það verður aldrei nægjanlega brýnt fyrir ökumönnum að fara varlega. Ég held að unga fólkið hlusti mun minna í dag á útvarp en áður var. Ipod þar sem tónlistin er valin eftir smekk hvers og eins hefur komið í staðinn. Þetta hefur það í för með sér að finna þarf nýjar leiðir til að ná til ungra ökumanna. Spurning er hvort SMS eða auglýsingar á blogg og spjallrásum geta komið til greina. Ungt fólk les mun minna af dagblöðum þá helst af Netinu. Nýju miðlarnir hafa tekið við af eldri tækni og munu gera enn frekar í framtíðinni. Myndbandaleigurnar eru vettvangur ásamt líkamsræktarstöðvunum þar sem hægt er að ná til ungs fólks. Segi þetta aðeins til umhugsunar. Bæti við heimasvæðum framhaldsskólanna. En hvernig náum við til vitlausra foreldra sem sinna ekki uppeldisskyldu sinni? Ég ætla að hugsa það mál.

Nafna mín 11 ára fór til Svíþjóðar og var þar með fimleikahópnum sínum í síðustu viku. Hún sendi SMS til að láta vita af sér. Þegar hún var spurð með SMS hvernig henni liði kom svarið "vel". Nú er hún komin í skóla í Englandi þar sem hún á að nema ensku. Ég veit að hún á eftir að spjara sig. Þetta verður ævintýri. Svo fer ég út í lok júlí að sækja hana til London þar sem við ætlum að skemmta okkur fara í leikhús og auðvitað versla dálítið.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er oft mjög vandað og þar er fjallað um efni sem skipta miklu máli í samfélaginu. Vændi er alþjóðlegt vandamál og hefur sjálfsagt tíðkast hér á landi frá stríðsárunum þegar körlum fjölgaði með komu erlendra hermanna. Sjálfsagt hefur vændi tíðkast í kringum bandaríska herinn og nú á seinni árum í kringum aukna ferðamennsku. Erfitt er að uppræta mannlega eymd sem leiðir af vændi en ég hef verið þeirrar skoðunar að þeir sem kaupa vændi eigi að fá refsingu ekki síður en þeir sem selja það. Klámvæðing þjóðfélagsins hefur verið mjög hröð og sjá má merki hennar í tískuheiminum jafnvel fyrir ungar telpur. Klámfíkn er stórt vandamál og segja mér tölvusérfræðingar að flestir karlmenn fari á klámsíður en margir hætti því eftir nokkurn tíma meða fíklarnir eru óseðjandi enda um nægt efni fyrir þá að velja.

Kvennahópurinn minn er í frí fram yfir verslunarmannahelgi. Ég sakna fundanna sem eru gefandi og skemmtilegir. Vona að stelpurnar fari varlega og gera engar vitleysur.

Fyrir utan gluggann minn er farið að dimma og það rignir. Inni er orðið rökkvað og það þarf að kveikja ljós. Nú er hásumar en samt finnum við svo lítið fyrir því.

Geir Haarde er vinsælasti stjórnmálamaðurinn. Það kemur ekki á óvart. Geir er traustur eins og hann sýndi svo vel þegar hann kom að lausn kjarasamninganna nú nýlega. Þjóðin vil hafa jákvæðan og taustan foringja og ekki skaðar hvað hann er gæsilegur maður.


"Kemst ég ekki í framhaldsskóla í vetur?"

Nemendur sem ætla í framhaldsskóla í vetur eru alls ekki vissir um að fá inni í óskaskólanum eða yfirleitt í nokkrum framhaldsskólanna. Kvennaskólinn í Reykjavík er einn af vinsælustu skólunum og hefur verið um árabil. Könnun meðal nemenda í 1. og 2. bekk skólans veturinn 2005-2006 sýnir vel afstöðu nemenda til skólans. Mikil ánægja er með kennsluna og samskipti í skólanum.

Á heimasíðu Kvennaskólans kvenno.is segir Atli Þór Albertsson, leikari og dagskrárgerðarmaður: "Taktu einvalalið kennara, frábæra nemendur, úrvals stjórnendur, heimsklassa félagslíf og útkoman er einföld. Kvennó". Þetta er góð einkunn frá fyrrverandi nemanda skólans. Við í Kvennaskólanum höfum barist á annan áratug fyrir bættu húsnæði fyrir skólann. Á sama tíma og skólinn er svo eftirsóttur er verið að byggja yfir skóla sem nemendur sækja ekki sérstaklega eftir að sækja sitt nám í. Þetta eru ekki tískustraumar eins og ráðuneytismenn vilja láta skína í heldur endurtekur sagan sig ár eftir ár. Hvenær verður húsnæði skólans bætt? Af hverju er ekki byggt yfir þá skóla sem nemendur vilja sækja?

Mér datt í hug að setja inn mynd sem var tekin hér í Skildinganesinu þegar nemendur Kvennaskólans komu heim til mín í heimsókn á peysufatadaginn vorið 2006. Vorboðarnir eins og þau eru í huga mér. Mér þótti viðeigandi að skarta upphlut ( sem ég þó skömm sé frá að segja hef ekki áður gert) á þessum peysufatadegi. Fleiri myndir frá deginum eru á heimasíðu skólans.

Áfram stelpur. Hvernig væri að fara að huga að framboðum kvenna fyrir alþingiskosningarnar vorið 2007. Það er aumt að koma eftirá og kenna körlunum um. Konur eiga að líta í eigin barm og standa með sjálfum sér. Hvar voru konurnar áður en kosið var í nefndir? Látum ekki taka okkur í bólinu heldur að bretta nú þegar upp ermarnar og hefja markvissan undirbúning og hvetja konur til áhrifa. Skoðum hvort við séum ánægðar með framgöngu þeirra sem núna sitja á alþingi og ef svo er þá styðja þær til áframhaldandi starfa en ekki síður leita að konum sem hafa hugsjónir, framsýni, dug og drift til að koma málum í höfn. Hættum að væla við erum helmingur kjósenda og getum ef við þorum.

Hvenær kemur sumarið?

 


Til hamingju Reykvíkingar með Vilhjálm borgarstjóra

Í dag tók við nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur og er þetta gleðidagur fyrir alla borgarbúa. Bjart var yfir borginni enda R-lista drunga létt af okkur. Það gladdi mig að hafa verið kosin í barnaverndarnefnd sem aðalmaður en á síðasta kjörtímabili var ég varamaður í nefndinni.Mér eru málefni barna einkar kær. Ég er þeirrar skoðunar að huga þurfi enn betur en nú er gert að fræða mæður og feður um mikilvægi heilbrigðs lífernis á meðgöngu og hversu mikilvæg fyrstu árin í lífi barna eru fyrir framtíð þeirra.

Jóhanna Margrét skammaði mig fyrir að hafa eytt bloggi og sagði að ekki mætti hrófla við því. Mér fannst mitt fyrsta blogg heldur ófullkomið enda er ég enn að læra á þetta tjáningarform. Sjálfsagt er þetta samt rétt hjá henni. Ég hef sjálf haft gaman af að fylgjast með skrifum annarra og hvernig þau hafa þróast.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Forsjárhyggja tefur framfarir

Höfundur

Bessí Jóhannsdóttir
Bessí Jóhannsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Stoltur formaður skólanefndar
  • Bessí
  • Framtíð Íslands
  • Börnin komin til að njóta
  • Reynir Jonasson  listamaður leikur fyrir dansi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 424

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband