Af hverju ekki kosningar í haust?

Ýmislegt hefur gerst í íslenskum stjórnmálum í liðinni viku. Geir verður forsætisráðherra, Sigríður Anna víkur úr ríkisstjórninni og Framsóknarflokkurinn stokkar spilin upp á nýtt. Það eru að verða kaflaskil í báðum stjórnarflokkanna. Davíð Oddsson hefur horfið af sviði stjórnmálanna og Halldór Ásgrímsson er á leiðinni út. Enginn hefur efast um að þeir hafi átt farsælt samstarf og að heiðarleiki þeirra í samskiptum við hvorn annan hafi átt þátt í styrkleika ríkisstjórnarinnar til að  skapa festu í þjóðfélaginu. Það verður því vandasamt verk sem Geir Haarde er að takast á við. Framundan er forustuslagur í Framsóknarflokknum þar sem samherjar munu berjast en ólíkar áherslur þeirra munu kristallast í átökunum. En af hverju er ekki efnt til kosninga í haust? Samkvæmt xd.is um sveitarstjórnarkosningarnar segir:  

Sjálfstæðisflokkurinn kom vel út úr kosningunum víðast hvar á landinu. Hreinn meirihluti náðist í 13 sveitarfélögum og meðalfylgi flokksins eykst úr á landsvísu frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þá var það 40,58% en er nú 41, 60%.

 

Þegar þessi staða Sjálfstæðisflokksins er skoðuð ætti að liggja beinast við að flokkurinn vilji alþingiskosningar sem fyrst eða hvað? Framsóknarflokkurinn er smám saman að hverfa. Foringjaskipti munu ekki breyta því. Völd Framsóknarflokksins hafa verið í engu samræmi við stærð hans. Þetta mislíkar þjóðinni. Flokkurinn hefur farið yfir þröskuld sem hann kemst aldrei til baka yfir eins konar "rite de passage". Þetta á ekki að hljóma eins og svarsýnishjal heldur mín skoðun og ég finn margra annarra. Sjálfstæðismenn þurfa að halda vel á spilunum til vors.

 

Ég er búin að vera á ferð og flugi að undanförnu og ýmislegt hefur gengið á en svona er lífið. Í dag var ég í Skálholti þar sem ungur drengur var fermdur af afa sínum og nafna séra Sigurði. Þau hjónin Sigurður og Arndís héldu síðan glæsilega fermingarveislu þar sem gaman var að hitta gamla vini. Maturinn var gómsætur enda höfðu biskupshjónin sjálf undirbúið veisluna. Séra Sigurður er snillingur í að úrbeina lambalæri og fylla með ávöxtum. Tertan hennar Arndísar bráðnaði í munni. Það er einstaklega hátíðlegt að vera við messu í Skálholti. Það er sérstakur friður yfir staðnum og altaristaflan hennar Nínu hefur einstök áhrif og fyllir mann trú og von.


Flottur meirihluti í Reykjavík

Vilhjálmur hefur sýnt í verki að hann kann að ná samningum.(Ekki það sé neitt nýtt fyrir mér). Björn Ingi var baráttuglaður og kjarkmikill í kosningabaráttunni. Við Sjálfstæðismenn vitum að hverju við göngum. Athafnastjórnmál er ágætt hugtak. Dagur var að vonum vonsvikinn en Ólafur hefði mátt telja upp á tíu áður en hann kom í Kastljós. Undarlegt með þessa spyrla hvernig spurningar þurfa alltaf að vera neikvæðar. Ég fagna nýjum meirihluta í borgarstjórn og óska þeim velfarnaðar.

Sjálstæðisflokkurinn stjórni borginn

Nú að kosningum loknum liggur beinast við að Sjálfstæðismenn taki upp samstarf við Frjálslynda flokkinn. Gamla brotið úr Sjálfstæðisflokknum skilar sér þá heim. Framsóknarmenn og Samfylking þurfa að sleikja sárin og endurskoða sína stefnu. Vinstri grænir eru annar álitlegasti flokkurinn til samstarfs. Svandís lofar góðu en ég er hræddari við Árna Þór.

Ég er eftir atvikum ánægð með úrslitin hjá okkur Sjálfstæðismönnum og frammistaða flokksins á landsvísu var góð. Betri en ætla mætti þegar það er haft í huga að við höfum verið svo lengi í ríkisstjórn.

Hvers vegna náðum við ekki 8. manninum. Mín skoðun er að nokkrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi kosið Frjálslynda vegna afstöðu þeirra í flugvallarmálinu.

Kosningsjónvörp beggja stöðvanna var gott en mér þótti það skemmtilegra NFS Sigmundur Ernir var maður kvöldsins. Vel upplýstur og skemmtilegur. Uppsetningin var betri að mínu mati hjá NFS en þá vantaði að hafa fjölda kjörinna fulltrúa í mynd eins og RUV gerði. Dagurinn var skemmtilegur. Ég var að vinna í Valhöll í hópi samherja. Starfsmenn flokksins eiga miklar þakkir skildar fyrir alla sína vinnu.

 


X-D í Reykjavík-Vilhjálmur verði borgarstjóri

 Kosið er í dag laugardag. Þetta verða vonandi spennandi kosningar. Kjósendur þurfa að átta sig á að hvert einasta atkvæði getur ráðið urslitum. Sjálfstæðismenn mega ekki sitja heima. Við ætlum að ná 8 mönnum inn eða fleiri. Ég hefði viljað sjá 9 menn. Í hópi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins er breiður og traustur hópur sem hefur unnið frábærlega vel í kosningabaráttunni. Ég hef fylgst með þeim á vinnustöðum og úti meðal boragarbúa. Baráttgleði hefur einkennt hópinn. Vilhjálmi hefur tekist að ná góðum anda í hópnum sem skiptir miklu máli í framrás samherja. Vinstri flokkarnir hafa reynt að sverta störf ríkisstjórnarinnar en illa gengið. Fólkið í borginni veit að það er R-listinn sem ber ábyrgð á stjórn borgarinnar síðasliðin 12 ár en ekki ríkisstjórnin.

Í kosningabaráttunni hefur Sjálfstæðisflokkurinn svarað kalli tímans í stefnu sinni. Fjölskyldurnar í borginni þurfa víðtæka þjónustu fyrir unga sem aldna. Breyttar heimilisástæður þar sem 80% kvenna er á vinnumarkaðnum kallar á nýjar áherslur. Hvernig rekstri þessarar þjónustu er síðan háttað er annað mál en þjónustan verður að vera til staðar. Fullorðið fólk fær mat á sínum vinnustöðum- börnin þurfa að fá heitan mat í hádeginu í grunnskólunum. Við verðum að bæta kjör starfsfólks þannig að starfsmannavelta verði minni. Það er slæmt fyrir börnin að hafa ekki festu í hópi þeirra sem annast þau.

Það er mín skoðun að brjóta þurfi upp kjarasamninga þannig að samkeppni verði um starfsfólk í stað skorts. Launin eru víða svo lág að margir kjósa frekar að vera á bótum en taka þátt í atvinnulífinu.

Megi morgundagurinn færa okkur samhenta stjórn Sjálfstæðismanna á komandi kjörtímabili.

ÁFRAM X-D-ÞITT ATKVÆÐI SKIPTIR MÁLI

Ég var í dag við skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík. Þar ríkti gleði og mikið var gaman að sjá unga fólkið setja upp hvíta kollinn. Ingibjörg skólameistari flutti ágæta ræðu þar sem hún minntist m.a. á húsnæðimál skólans en hver nemandi hefur um fimm fermetra sem er helmingi minna en gerist og gengur. Við höfum barist fyrir bættu húsnæði skólans í rúman áratug. Fyrst fyrir því og í raun æ síðan að fá að byggja við skólann á Fríkirkjuveginum og síðar fyrir nýrri skólabyggingu í miðbæ Reykjavíkur. Hún bent á að nemendur skólans koma af öllu Stór- Reykjavíkursvæðinu og víðar að. Nemendur sækja í skóla utan síns hverfis. Vilja komast í nýjan hóp eftir 10. ára veru í sama skólanum í mörgum tilfellum. Aðsókn að skólanum er mikil og höfum við getað valið úr nemendahópnum. Til marka um að þá er 1. bekkur skólans óvenju sterkur og brottfall í skólanum er um 3% sem er lítið. Vel er haldið utan um nemendahópinn og sterk tengsl vináttu og samstöðu myndast í skólanum. Vilhelmína skrifstofustjórinn okkar þekkir alla nemendur með nafni enda er hún einstök manneskja sem allir nemendur elska.

Við í Kvennaskólanum viljum minna á að þegar verið er að ákveða að byggja yfir skóla eða gera endurbætur þá má vel hafa í huga frammistöðu skólanna bæði hvað varðar rekstur og innra starf. Þar er Kvennaskólinn í fremstu röð. Piltum hefur jafnt og þétt fjölgað í skólanum og er það í anda þeirrar jafnréttisstefnu sem við rekum.Næsta vetur verður Ingibjörg skólameistari á Ísafirði og fylgja henni mínar bestu óskir. Ég veit að hún verður réttur leiðtogi á réttum stað. Oddný Hafberg verður skólameistari næsta vetur. Oddný hafur verið að vinna í ráðuneytinu að nýrri námsskrá fyrir þriggja ára framhaldsskóla. Hún er dugnaðarforkur og á eftir að vera skelegg og vinsæl næsta vetur. Velkomin Oddný.  

Halldór Ásgrímsson svaraði skýrt og vel fullyrðingum um meintan persónulegan greiða við Davíð Oddson þáverandi forsætisráðherra um frestun á brottför hersins.


Bón æskunnar-XD

 

 

 Skemmtilegt blað kom inn um lúguna hjá mér áðan. Ungir Sjálfstæðismenn með Bolla í fararbroddi gefa út blaðið. Hressir ungir menn eru í ritstjórn og þeir hafa humorinn í góðu lagi. Blaðið er sett upp á einstaklega skemmtilegan hátt og gat ég ekki annað en hlegið þegar ég sá forsíðuna. Það er yndislegt hvernig hægt er að snúa hlutunum við. Í viðtali við Bolla Thoroddsen, sem vonandi verður borgarfulltrúi kemur margt athyglisvert fram. Hann sem kemur frá vinstri sinnuðu heimili þar sem líflegar umræður um stjórnmál og þjóðfélagsmál áttu sér stað kaus að velja Sjálfstæðisflokkinn 16. ára gamall. Hann vill starfa í anda kjörorðsins "stétt með stéttt". Það er líkt á með okkur komið. Ég hreifst á sama aldri af sjálfstæðisstefnunni og þá sérstaklega þessu kjörorði. Ég var alin upp á alþýðuheimili þar sem pabbi var verkamaður á höfninni, bjó við ekkert vinnuöryggi. Pabbi var afar róttækur og þótti verkalýðsforingjarnir slappir í baráttunni.Ég skynjaði ung mikilvægi þess að stéttirnar vinni saman til að ná a´rangri.

Aftur að Bolla. Hann var í Japan og segir skemmtilega frá því ".. eða í afskekktu sveitaþorpi í Japan þar sem ég þekkti engan. Ég var þar undir heraga gamallar stríðshetju, sem hlýddi mér yfir daglega, lét mig lesa japönsk dagblöð og skrifa dagbók á japönsku. Mér leið svo vel að ég hef reynt að heimsækja, þá kappa í Fukuhima á hverju ári síðan!" Bolli er ungur og víðsýnn og ég hef miklar væntingar til hans sem framtíðar foringjaefni í Sjálfstæðisflokknum.

Tilvitnanir er nokkrar í blaðinu:"Ég var ekki alveg viss hvað ég myndi kjósa fyrr en ég var fastur í umferðarteppu á Hringbrautinni í hálftíma og sá X-S rútuna renna framhjá mér á strætisvagna akreininni", segir Kári Finnsson.

"Ég segi bara hvað með það". Trúið þið því það var borgarfulltrúinn Árni Þór Sigurðsson sem sagði þetta um fækkun borgarbúa í Reykjavík. Eru menn svo hissa á metnaðarleysinu sem einkennt hefur stjórn borgarinnar undir stjórn R-listans. Hann er líka einn af þeim sem ætlar að neyða alla til að hjóla.

Flott blað-frábærar hugmyndir-áfram unga fólk

 

Ég var að horfa á kosningasjónvarp með leiðtogum framboðslistanna í Reykjanesbæ. Árni bar af og ég væri ekki hissa þó fylgi hans ætti eftir að aukast í kjölfar þessa þáttar. Árni er góð fyrirmynd sem leiðtogi. Jákvæður, fastur fyrir og uppbyggjandi. Hann sér tækifæri í flestu meðan hugmyndasnauð og neikvæðni dregur niður andstæðingana. 

 Í gærkvöldi var ég í B&L þar sem verið var að kynna nýjar gerðir af BMW. Þetta var ævintýri líkast. Mikið var ég stolt af börnunum mínum Ernu og Guðmundi. Erna forstjóri B&L  kom fram fyrir hönd fyrirtækisins í kynningunni og gerði það með miklum glæsibrag. Guðmundur er búinn að vinna mikið við undirbúninginn og má vera stoltur af. Það er mikill heiður fyrir fyrirtækið að fá að taka þátt í heimsfrumsýningu á BMW. Um helgina verður hægt að skoða nýju bílana og hvet ég ykkur til að fara í B&L húsið.

Mér líður frábærlega þó það sé dálítil spenna vegna kosninganna í Reykjavík. Ég vona að við fáum meirihluta og Villi verði borgarstjóri. Hann er rétti maðurinn til að marka Reykjavík nýja stefnu sem einkennist af framsækni og metnaði til að gera Reykjavík að höfuðborg sem rís undir nafni. Borg þar sem við bjóðum alla velkomna og sækjumst eftir nýjum íbúum.

Guðrún mín takk fyrir kveðjuna. Mikið rosalega er gott að eiga vinkonu eins og þig.

 

 

 

 

Ég fann það um síðir að gæfan er gler
svo grátlega brothætt sýndist hún mér,
en æskan er léttstíg og leikur sér að
ljómandi gullinu fríða,
en glerið er brothætt og grjótið er víða.

Mér gersemin dýra var gefin hönd
í gáskanum héldu mér engin bönd.
Ég lék mér á æskunnar ljómandi strönd,
sá leikur varð gullinu að meini
ég braut það í ógáti á örlaga steini.

Nú sé ég það fyrst hvað ég skemmti mér við
en skemt hef ég dýrasta leikfangið.
Nú sit ég í rökkrinu og rísla mér við,
að raða brotunum saman.
Ég særi mig á þeim en samt er það gaman.

Freysteinn Gunnarsson orti.



X-D Reykjavík

Kjósum nýja forustu í Reykjavík.Við þurfum að fá samhentan hóp til að stjórna Reykjavík. Það hefur verið hörmulegt að fylgjast með sundraðri hjörð reyna að stjórna Reykjavíkurborg síðasta kjörtímabil. Við megum ekki gleyma því að flokkarnir sem áður voru R-listinn og eru nú að sverja af sér óstjórnina eru ábyrgir fyrir því sem gert hefur verið.

Hefurðu tekið eftir hversu sóðalegt er orðið víða í borginni?

Breiðholtið hefur mætt afgangi. 

Vatnsmýrin hefur verið bútasaumuð.

Orkuveitan er að hluta rekin sem áhættufyrirtæki og er að vasast í rekstri sem væri betur kominn í höndum einkafyrirtækja.

Þjónustuíbúðir vantar fyrir aldraða.

Heimþjónusta fyrir aldraða er af skornum skammti.

Lóðir fyrir einbýli vantar.

Skattleggja á námsmenn á einkabifreiðum.

Fræðslumiðstöð nú menntasvið miðstöð miðstýringar og ofstjórnar.

Þetta eru nokkur dæmi.

 

Vilhjálmur er reynslumikill, heiðarlegur og jákvæður og hann hefur sýnt í verkum sínum að hagur Reykjavíkur er honum efst í huga. Yfirgripsmikil þekking og reynsla í sveitarstjórnarmálum verður okkur Reykvíkingu til heilla. Við skulum fjölmenna og kjósa X-D á kjördag. Munið að kjósa ef þið ætlið að vera að heiman.

 

Sylvía tapaði eftir tilþrifamikla framgöngu í Eurovision. Hún stóð sig vel í þessu erfiða hlutverki og á hún þökk fyrir. Hún minnti okkur á hversu mikið bull er í kringum stjörnur og deildi á glamúrinn.  


Að bera ábyrgð

Það skiptast á skin og skúrir í lífi okkar allra. Við ein getum borið ábyrgð á gerðum okkar. Ábyrgð þeirra sem eru í forsvari fyrir aðra er þeim mun ríkari. Alkóhólismi er sjúkdómur stjórnleysis og dómgreindarskorts. Þeir sem verða veikir leita sér lækninga ef þeir viðurkenna að þeir hafa ekki lengur stjórn á lífi sínu. Hér á árum áður komust menn upp með það að vera fullir á fundum og jafnvel í háum embættum. Blaðamenn eru þekkt sétt þar sem fyllirí var viðurkennt. Fyrirtæki helltu óspart uppá þá og notuðu áfengi sem tæki til að ná velvilja hjá þeim. Frægar eru lýsingar á fótbolta þar sem þulurinn skáldaði og bullaði og komst upp með það. Nú er öldin önnur. Kröfur eru gerðar til manna um að sinna störfum sínum allsgáðir. Þetta á jafnt við stjórnmálamenn sem aðra. Að fara á barinn á Borginni er hætt "menn eru ekki lengur skemmtilegir", sagði góður vinur minn einu sinni þegar við vorum á nefndarfundi og enginn vildi fara með honum á barinn. Það er gríðarlegur áfengisvandi falinn í íslensku þjóðfélagi.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Forsjárhyggja tefur framfarir

Höfundur

Bessí Jóhannsdóttir
Bessí Jóhannsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Stoltur formaður skólanefndar
  • Bessí
  • Framtíð Íslands
  • Börnin komin til að njóta
  • Reynir Jonasson  listamaður leikur fyrir dansi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 464

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband