23.12.2006 | 23:17
Jólaísinn
Jólaundirbúningi er lokið. Jólatréð í stofu stendur, hangikjötið er tilbúið og jólaísinn kominn í frystinn. Ég hef notað uppskrift úr Gestgjafanum í mörg ár. Uppskriftin er komin frá Kristínu Sigurðardóttur og hér kemur hún.
1/2 l. af rjóma stífþeyttur
5 eggjarauður hrærðar með 1/2 bolla af sykri
5 eggjahvítur stífþeyttar með 1/2 bolla af sykri
sett saman í skál og einn poki af dökkum súkkulaðispæni ásamt 1 poka af möndluflögum sem hafa verið ristaðar örstutt í ofni. Ég læt flögurnar á álpappír í ofninn og kæli síðan og kreisti þær í pappírnum í fínt kurl. Öllu hrært saman og sett í form og kælt í frysti.
Þessi ís bregst ekki.
Jólakveðjur til landsmanna í gömlu gufunni eru fastur liður í jólahefðunum. Það er eitthvað svo notalegt að hlusta á okkar ástkæru þuli lesa kveðjurnar. Oddný vinkona er í Noregi hjá Villa og Örnu og tvíburunum. Í Bergen hefur verið rigning eins og hér heima og myrkrið er álíka og hér. Hún segir alla í góðu jólaskapi og dundar sér við barnabörnin, les fyrir þau og leikur við þau. Það er dýrmætt að eiga góða ömmu, sem kemur frá Íslandi til að gleðjast með þeim á jólunum. Jóhanna fór í bæinn með Önnu Þóru og Magdalenu. Einar Óli fór austur til foreldranna og var að vona að hann fái hvít jól. Við verðum hjá Ernu og Jóni og börnunum á morgun. Stór dagur hjá þeim. Fyrst er slegið upp afmælisveislu í hádeginu og síðan komum við og höldum jól. Ég hlakka til og ég kem með ísinn.
Jólasveinninn er víst kominn í hverfið. Mér heyrist ég heyra í honum. Einar skrifaði honum bréf og lét nokkrar smákökur í gluggann. Ég setti rauðan skó svona ef hann skyldi muna eftir stóru jólabarni."Ætli Jóhanna hafi munað eftir að láta sinn í gluggann?" Best að athuga það svo hún missi ekki af Sveinka. Hún er vön að gefa honum kerti á Þorláksmessunótt. Svo eru það búálfarnir. Í Skildinganesinu fengu þeir alltaf jólaís á jólanótt, í Hvassaleitinu hrísgrjónagraut. Ég er að hugsa um að gefa þeim hangikjöt hér á Einimelnum.
Gleðileg jól.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Forsjárhyggja tefur framfarir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.