Vinstri grænir-forsjárhyggjuflokkur

Dæmigert fyrir þá forsjárhyggju sem einkennir stefnu Vinstri grænna. Hvað er að því að gengið sé frá samningum sem lengi hafa verið í undirbúningi? Er ekki eðlilegt að ráðherrar gangi frá þeim málum sem að þeir hafa ábyrgð á? Vinstri grænir reka neikvæða og lítt uppbyggjandi kosningabaráttu og það er án efa óheppilegt fyrir þjóðina að fá slíka nöldurseggi í ráðherrastóla. Gleymum ekki að forsjárhyggja tefur framfarir.Við viljum búa í jákvæðu og hvetjandi þjóðfélagi þar sem menn standa skil á því sem þeir bera ábyrgð á, með bros á vör.

Kjósum jákvæðan flokk-Kjósum Sjálfstæðisflokkinn


mbl.is Vilja banna ráðherrum að skrifa undir samninga 90 daga fyrir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur samningur við SÁÁ

Áfengis- og fíkiniefnasjúkdómar einstaklinga eru án efa mestu hörmungar Íslendinga því af þeim leiða bæði efnahagslegur, félagslegur og heilsufarslegur vandi fyrir einstaklinga og þjóðarbúið. SÁÁ undir öruggri stjórn Þórarins Tyrfingssonar læknis gegna ómetanlegu hlutverki í að takast á við þennan illvíga sjúkdóm. Það er því fagnaðarefni að loks skuli vera í höfn samningur milli ríkis og SÁÁ. Hversu mörg börn skyldu vera hnípin í kvöld vegna ástands foreldra sinna eða afa og ömmu eða systkina? Hversu margir vilja bera ábyrgð á því að vera haldnir sjúkdóminum alkahólisma?

Það var mikið fagnaðarefni fyrir alla sem koma að starfi SÁÁ þegar nýja göngudeildin Von var nýlega opnuð. Þar fer fram fjölþætt starfsemi allt frá meðferð til dans- og tónleikahalds. Til hamingju með samninginn.


mbl.is Heilbrigðisráðuneytið framlengir þjónustusamning við SÁÁ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði á réttri leið

Kosningaþátttakan í frönsku forsetakosningunum sanna gildi lýðræðissins. 85% kosningaþátttaka er okkur lýðræðissinnum bæði gleði og mikil hvatning. Úrtölu- og svartsýnisraddir hafa haldið því fram að almenningu hafi minnkandi áhuga á stjórnmálum. Margir kjósendur höfðu ekki viljað gefa upp afstöðu sína til einstakar frambjóðenda þegar þeir voru spurðir í franska sjónvarpinu í vikunni. Ég tel að margir vilji ekki opinbera fyrir alþjóð hvað þeir ætla að kjósa og við skulum muna að það er þeirra mál. Kosið verður aftur milli þeirra sem flest atkvæði fengu líkt og gera ætti hér á landi í forsetakosningum-Bravó franskir kjósendur.

Var að ljúka við að horfa á endursýningu á Kastljósi og var það ágætur þáttur um viðhorf frambjóðenda í Reykjavík suður, mínu kjördæmi.Spyrlarnir Jóhanna Vigdís og Þordís voru ágætar. Vel undirbúnar og héldu mönnum við efnið. Það sem stóð upp úr er hversu ósamkvæmir vinstriflokkarnir eru sjálfum sér. Ómar vill áfram flugvöllinn í Vatnsmýrinn eins og ég. Breyta þarf brautunum lítillega og byggja samgöngumiðstöð. Samgöngumálin þarf að leysa. Sundabraut, Kringumýrarbraut og Öskjuhlíðargöng. Drífa þarf í þessum framkvæmdum öllum.Kolbrún koma með sínar klassísku klisíur en engar nýjar hugmyndir. Allt er vont sem vel hefur verið gert. Draga fram óánæju. Ekki er það nú uppbyggileg stefna.Forsjárhyggja, vantrú á einstaklingana  Ingibjörg Sólrún er í fýlu við Vinstri græna og spæld yfir fylgisaukningu þeirra. Íslandahreyfingin er óttaleg stefnulaus og leysa það engar vísur frá Ómari. Hann er ekki á réttri hillu. Átti að halda sig við baráttusamtökin.  Hann hefur ekki nægjanlega þekking á efnahags- og félagsmálum. Jón Magg var við sama heygarðshornið með útlendingana en sýndi góða takta í samgöngumálum. Jónína Bartmars var bara hörkugóð og varðist vel. Geir er minn maður og auðvitað var hann bestur. Sýndi festu og framsýni . Það gerum við með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Baldvinn var hjá Agli og athygli vakti að hann svaraði ekki spurningunni um hvað flokk hann ætlar að kjósa. Ekki er það nú jákvætt fyrir Samfylkinguna sem vildi hann ekki á framboðslista. Kýs hann Vinstri græna? Ekki líklegt. Jón er í raun frjálslyndur hægrimaður sem ætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en það er væntalega of stór biti fyrir hann að kyngja.


Ný kynslóð á tónlistarhátíð

RUV sýndi í kvöld frá afhendingu íslensku tónlistarverðlaunanna í Borgarleikhúsinu. Unga fólkið setti mestan svip á hátíðina og ber að fagna því hversu glæsilegt ungt tónlistarfólk við eigum. Það er afar viðeigandi að veita því fyrirtæki sem best gerir hverju sinni til að örva tónlistarfólk til dáða viðurkenningu. Mikið er rætt um gróða íslenskra stórfyrirtækja en í því sambandi gleymist hversu mikilvægur stuðningur þeirra er við hvers konar menningarstarfsemi í landinu. Ég hef miklar efasemdir að þeir fjármunir hefðu legið á lausu hjá ríkisvaldinu.

Á laugardaginn var sótti ég 100 ára afmælishátíð KRFÍ. Þorbjörg Inga Jónsdóttir formaður félagsins hefur notið mikillar virðingar sem formaður og sýndi það sig á ráðsefnunni þar sem fjölmenntu konur úr öllum stjórnmálaflokkum. Dagskráin var yfirgripsmikil og fróðleg. Sólveig Ólafsdóttir fyrrverandi formaður var gerð að heiðursfélaga. Sólveig var formaður KRFÍ á því herrans ári 1975 þegar konur fjölmenntu á kvennafrídaginn í miðbæ Reykjavíkur, svo margar að hrollur fóru um suma karlana og þeir sáu að konur geta með samtakamætti sínum unnið þrekvirki. Framtíðin var nokkuð til umræðu og bent á að við eigum enn verk að vinna. Fjölga þarf konum í stjórnum bæði opinberum og hjá einkageiranum. Kvennastéttir eru enn eftirbátar á vinnumarkaði og allt of lítið gert til að brjóta þær upp og virkja karla inn í "hefðbundnar" kvennastéttir. Konur þurfa að vera fleiri í stjórnum verkalýðs- og atvinnurekenda. Búa þarf til áætlun um það hvernig breyta megi ímynd starfstétta sem konur eru í meirihluta í. Tökum dæmi kennsla í leik- og grunnskóla, umönnununarstörf á ýmsum sviðum. Rannveig Rist benti nýlega á í viðtali við Mbl. að viðhorf starfsmanna í Alverinu í Straumsvík hefði breyst mikið til þess að konur og karlar gætu starfað þar hlið við hlið. Raunar er það átak sem unnið hefur verið í jafréttismálum innan stóriðjugeirans ´til fyrirmyndar. Þar verða breytingar þó hægt fari. Jafnréttisnefndir ríkis og sveitarfélaga þurfa að taka upp nýja og jákvæðari hugsun. Ég get ekki annað en minnst á hádegisfund sem mér var boðið á á mánudaginn. Þar var ræðumaður nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins Stefán Eiríksson. Hann vill nálgast starf sitt af jákvæðni og með því að gera menn virka bæði innan lögreglunnar og hinn almenna borgara. Það er með hugsun og vinnubrögðum sem miðar að skilvirkni og samvinnu svo ekki megi gleyma sýnileika. Jafnréttisbaráttan er ekki nægjanlega sýnileg. Feministar hafa þó verið undantekningin sem sannar regluna, en það er spurning hvort ekki sé hægt að reka baráttuna á jákvæðari nótum. Ungar konur í stjórnmálum þurfa að vera duglegar að koma fram í fjölmiðlum. Með því öðlast þær dýrmæta reynslu. Tvær ungar sjálfstæðiskonur Sigríður Andersen og Erla Ósk Ásgeirsdóttir hafa komið í viðræðuþætti og staðið sig eins og hetjur þó fréttamennirnir hafi báðir sem stjórnuðu viðræðunum sýnt af sér mikinn hroka gagnvart þeim. Hvað er svona miklu merkilegra sem dettur upp úr Guðmundi Steingrímssyni og Stefáni Jóni Hafstein en þessum ungu konum? Fréttamenn þurfa að koma fram við viðmælendur sína af virðingu og nærfærni. Frekir karlar vilja gjarnan valta yfir ungar konur sem eru að byrja sinn ferið í stjórnmálum. Áfram stelpur, ekkert væl. Látið ekki valta yfir ykkur.

   


"Rod Stewart is hotter than water"

sagði konan sem með glampa í augunum kom á móti okkur systrum á tónleikunum í Tampa. Goðið söng öll sín bestu lög og heillaði okkur þegar leið á tónleikana.Ég hélt að það þyrfti að bera hann af sviðinu í byrjun, en allt fór vel.

Eftir að hafa stillt leiðsögutækið á st. Pete Times Forum Tampa, var lagt af stað. Tækið er þeim eiginleikum búið að það finnur alltaf bestu leiðina jafnvel þó Ástu tækist að fara út af sporinu. Þegar við nálguðumst lentum við af leið inn í hverfi sem mér þótti nokkuð svart en Ásta var ekki banginn og spurði einn gamlan og tannlausan til vegar og hann benti okkur á rétta leið. Nú er ég búin að fá nóg af Tom, setti tækið í hanskahólfið en viti menn hún hélt áfram að vísa veginn. Við lögðum bílum allnokkra vegalengd frá stadium og gengum frá bílnum.

Leituðum eftir kennileitum til að finna hann aftur. Fundum sæti og það var engin upphitunarhljómsveit heldur kom Rod sjálfur svartklæddur og hóf sönginn. Hann var lengi að komast í gang og var ég að velta því fyrir mér hvort hann væri ekki orðinn útbrunninn. Hann söng þó nokkur falleg lög eins og Dirty old man sem hann hafði fyrst sungið á plötu 1969. Eftir hlé kom nýr og betri Rod á sviðið. "rock and roll is the name of the game",sagði goðið og sannaði það. Hvert fallega lagið tók við af öðru og hljómsveitin var frábær. Ungar stúlkur léku á fiðlu og saxófón svo unun var á að hlýða. Rauði leðurjakkinn hafði góð áhrif og síðar gylltu skórnir. Maggi Sue og Sailing toppuðu allt. Eftirminnilegir tónleikar og það er skemmtilegt að sjá hve Ameríkanar kunna vel að taka virkan þátt í söngnum. 13000 manns voru í höllinni sem annars tekur 20000. Nokkuð var um ölvun en gleðin var í svip tólistargesta þegar þeir gengu til bíla sinna.

Leiðsögutæðið kom okkur heim á mettíma. Í dag höldum við heim til Íslands lands íss og elda eins og stóð á bol frá Bjarna mági minum í Bol á árum áður. Við förum á hádegi frá Tampa til New York og síðan beina leið heim með Flugleiðum. Í kvöld sofna ég með lag Goðsins sailing inn í draumalandið.

 


Með sól í hjarta á Florida

Sólin skín hér á Flórída meðan vetrarguðirnir leika lausum hala á Fróni. Við Ásta systir mín dveljum hér í nokkra daga og ætlum í kvöld á Rod Stewart tónleika í Tampa. Hlakka til að sjá kempuna og vona að hann syngi sem mesta af sínum gömlu góðu klassíkerum.  Veðrið hefur verið óvenju gott hér miðað við árstíma og höfum við notið þess í löngum gönguferðum eftir stöndinni. Það er annars merkilegt hversu fátt fólk er á ferli. Almennt virðast gönguferðir ekki verið stundaðar og þarf engan að undra hversu feit bandaríska þjóðin er orðin. Við horfðum á bein útsendingu frá Hollywood á Golden globe og höfðum skemmtun af að sjá kjólana og hlusta á ræðustúfana. Kjólarnir voru afar sundurleitir, hvítt var nokkuð áberandi og svart. Misjafn smekkur sem betur fer. Karlarnir voru í svörtum fötum með svört slifsi, sumir í svörtum skyrtum. Auglýsingaflóðið var yfirþyrmandi, svo mikið að við vorum við það að gefast upp. Í gærkvöldi var svo verið að fjalla um fallegustu og ósmekklegustu kjólana. Annars er sjónvarpið lítið spennandi. Ásta tekur upp einstaka þætti og þá er hægt að spóla yfir auglýsingarnar. Svo mun vera til kerfi sem býður upp á upptöku án auglýsinga. Við höfum kíkt á nýjustu þættinaa í Prison break, Desparate housewives og Greys anatomy. Skemmtilegir þættir. Í fréttum hér hefur mál tveggja dregja borið hátt. Annar þeirra hvarf og fannst þremur dögum seinna fyrir atbeina athuguls nágranna mannsins sem hafði rænt honum. Hinn drengurinn hafði verið horfinn í fjögur ár og verið í haldi hjá þessum sama manni. Maðurinn haði sinnt sama starfinu í 25 ár og nágrannarnir töldu drenginn son hans. Hann virtist búa við eðlilegt heimilislíf hjá föður sínum, átti vini og kærustu. Gekk í skóla eins og önnur börn. Þetta mál minnir nokkuð á mál austurrísku stúlkunnar sem kom í leitinar eftir dvöl hjá kvalara sínum til fjölda ára. Fjöldi spurninga er á margra vörum hvernig slíkt gerist og verður þeim án efa varpað til sérfræðinga á ýmsum sviðum. Sorglegt mál sem vakið hefur vonir foreldra týndra barna víða um Bandaríkin um að börn þeirra gæu verið á lífi.

Jón tengasonur minn varð fertugur í gær og ég óska honum til hamingju. Allt er fertugum fært. Hann er í blóma lífsins og ég hlakka til að koma heim í afmælisveisluna á laugardaginn.

Búin að kaupa Vans skó á nöfnu mína og Einar. Útsölur eru hér í öllum búðum og því erfitt að fá það sem passar. Það tókst.

Verðlag  hér er lágt miðað við Ísland á fatnaði. Munar meira en helmingi á verði á skóm og bolum og er það allt of mikill munur.

Okkur systrunum hefur gengið vel í umferðinni. Ásta keyrir eins og herforingi og við römbum nokk á rétta staði. Nú er hún búin að kaupa sér tomtom leiðsögukerfi sem okkur virðist virka ágætlega. Við ætlum að reyna það í kvöld þegar við förum á tónleikana í Tampa. 


Vínartónleikar-Heillandi söngur

Þóra Einarsdóttir heillaði áheyrendur í Háskólabíói í kvöld. Hljómsveitarstjórinn,Christopher Warren Green stjórnaði af leikni samfara miklum humor og sjarma. Ég er afar ánægð að þessir árlegu tónleikar skuli vera í Háskólabíói. Þar skapast nálægð og stemming sem er við hæfi. Það er ánægjulegt til þess að vita að karlar og konur skipa hljómsveitina að jöfnu. Góðir tónleikar sem flestir ættu að reyna að njóta.

Ég hef verið óttalega löt nú í byrjun árs. Er búin að snúa sólarhringnum við, les fram eftir nóttu eða góni á innihaldslausar bíómyndir. Þetta stendur þó allt til bóta því næg verkefni eru framundan og því brýnt að bretta upp ermarnar enn á ný. Í gærkvöldi var ég í frábæru kvöldverðarboði þar sem saman fór ljúffengur matur og skemmtilegar samræður.

Ég hef haft takmarkaðan áhuga á stjórnmálunum að undanförnu. Geir flutti fínt nýjársávarp og var afar diplómatískur. Varla nokkur kjósandi sem ekki getur kosið okkur Sjálfstæðismenn með allgóðri samvisku? Ólafur forseti hafði margt ágætt að segja um fjölskyldumálin og vísaði til umræðu sem var í greinaflokki í Morgunblaðinu í haust(ef ég hef skilið hann rétt). Þarft að ítreka þetta en hitt þótti mér þó skondnara hversu öflugur hann er í aðdáun sinni á stórfyrirtæki heimsins.

Alcoa hefur stutt rækilega við framleiðslu á ýmis konar upplýsinga- og menningarefnis og er það besta mál þó það fari fyrir brjóstið á einhverjum. Synd að þáttur frá tónleikum Björgvins Halldórssonar var ekki í opinni dagskrá, en Alcoa styrkti gerð hans. Spurning hvort Stöð2 ætti að skoða betur menningarlegt hlutverk sitt í þágu allra landsmanna.

Pakki sem ég sendi til Bergen í DHL fyrir jól er loksins kominn á leiðarenda. Hann er búinn að vera  á flakki landa í milli og mun þetta ekki einsdæmi. Villi og Oddný í Bergen eru búin að fá nýjar húfur og trefla og panta ég hér með mynd. Jólaspólurnar munu væntalega koma sér vel næstu jól og góðar bækur má alltaf lesa. Oddný amma er að átta sig á því að hún fer frá Bergen eftir þrjá daga enda lífið að færast í fastar skorður. Skólinn að byrja og allir á fullu í erli dagsins. Á morgun fer ég í æfinguna klukkan 10 og ætla því að fara að koma mér í háttinn.

 

 

 


Leikhúsjól

"Sitji guðs englar" er skemmtilegt leikrit og leikgerð Illuga Jökulssonar er  afar vel heppnuð. Walt Disney sagði einhverju sinni að ef fullorðnum þætti gaman á barnaleikriti þá væru börnin sama sinnis. Sá andi sem sveif yfir vötnum í Þjóðleikhúsinu í kvöld sannaði þetta. Það voru sannarlega fulltrúar margar kynslóða sem skemmtu sér saman. Fyrir aftan okkur sátu eldri hjón og tóku virkan þátt í sýningunni. Rauluðu með tónlistinni og hummuðu þegar þau þekktu svip úr fortíðinni. Leikararnir stóðu sig af prýði ungir sem aldnir. Það var líka athyglivert hversu prúð börnin voru meðan á sýningu stóð. Leikararnir náðu til þeirra og héldu áhuganum alla sýninguna.

Annað var nú á fumsýningunni á öðrum í jólum. Ég ætla ekki að ergja mig við að ræða sýninguna annað en hún var langdregin og leiðinleg. Búningarnir voru vel heppnaðir og ef sýningin hefði náð út yfir þá, þá ... Leikararnir hefðu mátt vera með hljóðnema því textinn er langur og tyrfinnog því oft erfitt að fylgja þræðinum. Mikil vonbrigði fyrir mig og líka að Jóhanna hafi kynnst grískum harmleik á þennan hátt. Hún sagði við mig á eftir að vinsamlega ekki bjóða henni á fleiri slíka.

Jólin hafa verið skemmtileg og tók ég mikið af myndum sem ég ætla að koma á bloggsíðuna við tækifæri.

Í dag förum við í brúðkaup Svönu dóttur Ástu systur minnar og Bjarna mágs og Högna unnusta hennar. Það er búið að vera tilhlökkunarefni í marga mánuði og gaman hefur verið að fylgjast með undirbúningnum í fjarlægð.Ég er búin að velta því fram og til baka í hverju ég ætla að vera og loksins hef ég tekið ákvörðun. Æðislegur svartur kjóll, mér er sagt af séfróðum að svart sé í lagi í vetrarbrúðkaupum, með svörtum flauelsjakka yfir ef þarf. Svana og Högni eru miklir vinir mínir og óska ég þeim guðs blessunar í hjónabandinu. Á árinu sem er að líða fór ég í glæsilegt brúðkaup Magga og Möggu og það var gaman að fá jólakort frá þeim með brúðkaupsmyndinni.

Það má með sanni segja að engin lognmolla hafi fylgt árinu sem er að líða. Ég ætla ekki að tíunda atbuði ársins  en horfi fram á við til nýs árs með opnum huga til að takast á við ný viðfangsefni,einn dag í einu.

Guð gefi okkur öllum gleðilegt ár. Þakka liðið ár hverjum sem vill taka það til sín.


Jólaísinn

Jólaundirbúningi er lokið. Jólatréð í stofu stendur, hangikjötið er tilbúið og jólaísinn kominn í frystinn. Ég hef notað uppskrift úr Gestgjafanum í mörg ár. Uppskriftin er komin frá Kristínu Sigurðardóttur og hér kemur hún.

1/2 l. af rjóma stífþeyttur

5 eggjarauður hrærðar með 1/2 bolla af sykri

5 eggjahvítur stífþeyttar með 1/2 bolla af sykri

sett saman í skál og einn poki af dökkum súkkulaðispæni ásamt 1 poka af möndluflögum sem hafa verið ristaðar örstutt í ofni. Ég læt flögurnar á álpappír í ofninn og kæli síðan og kreisti þær í pappírnum í fínt kurl. Öllu hrært saman og sett í form og kælt í frysti.

Þessi ís bregst ekki.

Jólakveðjur til landsmanna í gömlu gufunni eru fastur liður í jólahefðunum. Það er eitthvað svo notalegt að hlusta á okkar ástkæru þuli lesa kveðjurnar. Oddný vinkona er í Noregi hjá Villa og Örnu og tvíburunum. Í Bergen hefur verið rigning eins og hér heima og myrkrið er álíka og hér. Hún segir alla í góðu jólaskapi og dundar sér við barnabörnin, les fyrir þau og leikur við þau. Það er dýrmætt að eiga góða ömmu, sem kemur frá Íslandi til að gleðjast með þeim á jólunum. Jóhanna fór í bæinn með Önnu Þóru og Magdalenu. Einar Óli fór austur til foreldranna og var að vona að hann fái hvít jól. Við verðum hjá Ernu og Jóni og börnunum á morgun. Stór dagur hjá þeim. Fyrst er slegið upp afmælisveislu í hádeginu og síðan komum við og höldum jól. Ég hlakka til og ég kem með ísinn.

Jólasveinninn er víst kominn í hverfið. Mér heyrist ég heyra í honum. Einar skrifaði honum bréf og lét nokkrar smákökur í gluggann. Ég setti rauðan skó svona ef hann skyldi muna eftir stóru jólabarni."Ætli Jóhanna hafi munað eftir að láta sinn í gluggann?" Best að athuga það svo hún missi ekki af Sveinka. Hún er vön að gefa honum kerti á Þorláksmessunótt. Svo eru það búálfarnir. Í Skildinganesinu fengu þeir alltaf jólaís á jólanótt, í Hvassaleitinu hrísgrjónagraut. Ég er að hugsa um að gefa þeim hangikjöt hér á Einimelnum.

Gleðileg jól.


Jólin eru ekki bara jól

"Ég hengi upp kúlu, en þú flytur hana alltaf", sagði Jón minn yndislegi tengasonur við Ernu dóttur mína þegar við vorum að ræða jólaundirbúninginn í kvöld. "Mamma þú ólst mig upp í því að svona á að skreyta jólatré". Ótrúlegt en satt. Þannig er ég án þess að hafa gert mér grein fyrir því. Fyrst er það jólaserían, innst, lýsir upptréð. Kúlurnar koma síðan, neðst þær stóru (voru aðeins til fjórar), Efst þær smæstu. Síðan má sjá í sérstakar kúlur beint ofan sjónlínu, en aldrei tvo liti saman. Jóhanna sagði að hún hefði lært þetta ósjálfrátt enda hefur hún séð um skreytingu undanfarin ár. Svo eru það gjafirnar. Ég er hræðilega forvitin og hef venjulega fundið út alla gjafirnar en í ár er þetta eins og margt annað öðruvísi. Ég veit ekki hvað ég fæ. Spennandi.I dag á Þorláksmessu kemur Einar afmælisbarn morgundagsins til mín. Um daginn kom til hans óvænt gjöf í skóinnog viti menn ég sá spor í snjónum við gluggann minn (bæði kattar og jólasveins) og hann vildi fá að laumast og elta þau. Gat fengið hann ofan af því en það get ég sagt að ferð Sveinka verður ekki auðveld næstu nótt enda ekkert færi fyrir Arctic Cat sleða með jólasvein og kött, en við finnum ráð við því.

Jólin eru ekki bara jól , þau eru yndisleg aðventa, biðtími jólanna. Við aðlögum okkur hugsununni um nýtt upphaf sem felst í fæðingu frelsarans, sem endurspegalr líf okkar allra.

Gleðileg jól, guð blessi okkur öll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Forsjárhyggja tefur framfarir

Höfundur

Bessí Jóhannsdóttir
Bessí Jóhannsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Stoltur formaður skólanefndar
  • Bessí
  • Framtíð Íslands
  • Börnin komin til að njóta
  • Reynir Jonasson  listamaður leikur fyrir dansi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 371

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband